Margrét wrote a text for Sequences IX real time art festival.

 Um daginn fékk ég símhringingu frá tryggingafélagi sem bauð mér tvo kosti: að ég kæmi til þeirra og þeir myndu gera mér tilboð í tryggingarnar eða þá að þeir myndu „senda mann“ til mín. Þriðji kosturinn var auðvitað líka í boði: að afþakka og það hafði ég margoft áður gert. Tíðindaleysi daganna gerði það hins vegar að verkum að mér þótti spennandi að fá ókunnugan mann í heimsókn. Þetta var viðeigandi heimsókn að fá; viðkvæm og óþægileg – alveg eins og mér leið. Ég hafði líka hugsað óvenju mikið um líf- og sjúkdómatryggingar vikurnar á undan þannig að ég leit á þetta sem augljóst merki um að ganga í málið. Og hann kom, tryggingamiðlarinn, um hádegið einn daginn. Alveg eins og ég hélt að hann yrði; í jakkafötum og með skjalatösku – sem var reyndar mjúk en ekki hörð eins og ég hafði séð fyrir mér. Hann stóð fyrir framan mig, yngri en ég hafði gert ráð fyrir, í dökkgráum jakkafötum með smá glans – eins og óþornuð steypa. Áður en ég náði að segja að það væri óþarfi að fara úr skónum var hann kominn úr þeim og steig inn á parketið, í ljósbrúnum sokkum. Ég bauð honum kaffi sem hann þáði. Áður en hann kom hafði ég tekið fram súkkulaði og brytjað niður í litla skál. Þegar ég stóð frammi fyrir skálinni inni í eldhúsi var það alveg skýrt fyrir mér að súkkulaðið var orðið allt of persónulegt – eiginlega dónalegt. Ég skyldi ekki bera það fram. Ég gekk inn í stofu með kaffið og tók eftir því að hann horfði ekkert í kringum sig. Hann hefði alveg mátt gera það, mín vegna. Spyrja út í bækurnar, myndirnar á veggjunum eða steinana í glugganum. Þetta er líklega eitthvað sem þeim er uppálagt að gera þegar þeir fara svona inn á heimili fólks. Að láta eins og þeir séu ekki beint þarna. Ég fann að þetta passaði ekki karakternum hans, hann var ekki lokaður, heldur opinn – ég myndi jafnvel ganga svo langt að segja að hann væri „emotionally available” – sem er gríðarlega góður eiginleiki en kannski óþarfur í okkar samskiptum. Birtan inni í stofu hafði líka varpaði ljósi á það að hann var rauðbirkinn sem kom mér skemmtilega á óvart. Ég hafði ekki tekið eftir því í gluggalausu holinu. Svo sátum við hvort á móti öðru við borðstofuborðið, hvort með sína tölvu fyrir framan sig og spiluðum einhvers konar tryggingapóker, þar sem ég mátti ekki segja honum hver kjör mín væru hjá mínu tryggingafélagi. Skemmtilegast fannst mér þegar hann útskýrði fyrir mér sjúkdómatryggingarnar og hina fjóru mismunandi flokka sjúkdóma. Það eru tryggingafélögin sem hafa flokkað þessa sjúkdóma – í samráði við lækna, býst ég við. Hann sagði: Þú verður blind. Skiptir ekki máli hvernig þú verður blind, hvort þú missir augað í slysi eða færð augnsjúkdóm. Þú ert bara orðin blind og færð tíu milljónir. En svo einhverju síðar verðurðu heyrnarlaus, þá færðu ekki neitt af því að heyrnarleysið er í sama flokki og blindan. Ef þú færð hins vegar krabbamein þá færðu aftur tíu milljónir af því að krabbameinið er í öðrum flokki. Hann var svo jarðbundinn og skýr þegar hann sagði mér þetta allt saman að ég varð í senn heilluð og áhyggjufull. Tilboðið sem hann gerði mér var að lokum bara örfáum krónum hagstæðara en það sem ég var nú þegar með sem reyndist honum greinilega vonbrigði. Hann bætti þá við einhverjum auka fríðindum og ég sagðist myndi „hugsa málið” og um leið velti ég því fyrir mér hvort það væri til leiðinlegra orðasamband. Eða leiðinlegri afstaða til lífsins. Þannig að ég bætti við „þó að ég viti að hvorki sjúkdómar né dauði gefi manni tækifæri til að hugsa málið”. Hann sagði ekkert, heldur fór niður á vinstra hné til að klæða sig í skóna. Ég sá undir sokkana á vinstri fæti og þeir voru með gúmmígripi – eins og barnasokkar – til að renna ekki á parketi.